Skólinn

Austurbæjarskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur í 1.-10 bekk og stendur hann við Barónsstíg í Reykjavík. Nemendur eru um það bil 350 og eru að jafnaði tvær bekkjardeildir í hverjum árgangi. Í skólanum er leitast við að sníða skólastarfið í samræmi við eðli og þroska hvers nemanda.
Í Austurbæjarskóla er lögð áhersla á hugarfar vaxtar, víðsýni, vellíðan og vilja til að gera stöðugt betur.
Markmið skólans er að auka þekkingu og leikni nemenda og gera þá að farsælum og sjálfstæðum einstaklingum. Einstaklingum sem hafa trú á eigin getu og takast óhræddir á við nýja hluti í viðleitni sinni við að finna hæfileikum sínum og hæfni farveg.
Frístundaheimilið Draumaland er fyrir börn í 1.-4. bekk í Austurbæjarskóla og félagsmiðstöðin 100og1 býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir börn og unglinga.
Skólastjóri er Kristín Jóhannesdóttir
Aðstoðarskólastjóri er Sigríður Valdimarsdóttir
Skólastarfið
Stefna skólans
Stefna Austurbæjarskóla tekur mið af lögum, reglugerðum, alþjóðasamþykktum, stefnu Reykjavíkurborgar í fræðslumálum og félagslegu umhverfi skólans. Öllum skal tryggt jafnrétti til náms án tillits til kyns, þjóðernis, stéttar, stöðu og trúarbragða.
Framtíðarsýn skólans er: Framsækinn skóli fyrir alla. Í því felst að lögð er áhersla á hugarfar vaxtar, víðsýni, vellíðan og vilja til að gera stöðugt betur. Markmið skólans er að auka þekkingu og leikni nemenda og gera þá að farsælum og sjálfstæðum einstaklingum. Einstaklingum sem hafa trú á eigin getu og takast óhræddir á við nýja hluti í viðleitni sinni við að finna hæfileikum sínum og hæfni farveg. Austurbæjarskóli leggur sig fram um að vera í fararbroddi hvað varðar fjölbreytta náms- og kennsluhætti þar sem allir hafa jafnan aðgang að lærdómsferlinu. Lögð er áhersla á að varða leið nemenda í námi, vinna með reynsluheim, hvetja til samvinnu og auka metnað og árangur.
Austurbæjarskóli er vinnustaður fyrir hugmyndaríkt og skapandi fagfólk sem sýnir metnað í starfi, ber hag nemenda fyrir brjósti og leggur sig fram um að sinna þörfum barna og unglinga.
Einkunnarorð skólans eru: vöxtur – víðsýni – vellíðan – vilji. Þessar áherslur endurspeglast í öllum samskiptum og starfi skólasamfélagsins. Til að svo megi verða hefur starfsfólk Austurbæjarskóla, nemendur, foreldrar og starfsfólk frístundar komið sér saman um eftirfarandi stefnumörkun:
Vöxtur:
Fjölbreytni nemendahópsins í Austurbæjarskóla felur í sér mikinn styrk fyrir skólasamfélagið og er uppeldi, framfarir, menntun og líðan nemandans sett í öndvegi. Í skólanum er stuðlað að hugarfari vaxtar þar sem lögð er rækt við hæfileika og að efla færni. Áhersla er á framfarir og leiðsagnarmat, með markvissri uppbyggjandi endurgjöf. Nemendur eiga að geta haft áhrif á og tjáð sig um nám sitt, vita hvar þeir eru staddir, hvert þeir eiga að stefna og hvað er góður árangur. Námið er einstaklingsmiðað en byggir á samvinnu, lausnaleit, þverfaglegri vinnu og fjölbreyttum náms- og kennsluháttum.
Víðsýni:
Víðsýni er einkunnarorð Austurbæjarskóla enda eru í skólanum ólíkir einstaklingar sem búa yfir margvíslegri þekkingu og reynslu. Virðing er borin fyrir fjölbreytileikanum, nemendur vinna að verkefnum sem reyna á samstarf, gagnrýna hugsun, stuðla að fordómaleysi, auka sjálfsþekkingu og búa þá undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi.
Vellíðan:
Vellíðan felst í góðum skólabrag þar sem gleði, traust, vinsemd, virðing og jafnrétti endurspeglast í daglegum samskiptum. Austurbæjarskóli er heilsueflandi grunnskóli þar sem lögð er áhersla á andlegt, félagslegt og líkamlegt heilbrigði í skapandi og hlýlegu námsumhverfi. Markvisst er unnið að því að efla sjálfsmynd nemenda og seiglu. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti og unnið er gegn fordómum og einelti.
Í skólanum ríkir samhugur um gildi og sýn sem stuðlar að sterkri skólamenningu þar sem allir, jafnt nemendur, starfsfólk, foreldrar og frístundafólk bera hag skólans fyrir brjósti og eru á leið í sömu átt.
Vilji:
Lögð er áhersla á að virkja vilja alls skólasamfélagsins til að gera betur, sækja fram og þróa skólastarfið á skapandi hátt með það að markmiði að styðja við nám nemenda. Er það meðal annars gert með öflugu list- og verkgreinanámi, samstarfsverkefnum við frístund, foreldra og aðra aðila nærsamfélagsins, með umhverfisverkefnum, vettvangsnámi, starfsnámi og samfélagsverkefnum.
Austurbæjarskóli hefur um margt nokkra sérstöðu. Skólinn er í sögufrægu húsi í miðbæ Reykjavíkur og frá upphafi til vorra tíma hefur skólastarfið verið metnaðarfullt og í takt við þarfir samtímans. Styrkur skólans felst fyrst og fremst í fjölbreyttum nemendum, metnaðarfullu starfsfólki, öflugu foreldrasamfélagi og kraftmiklu frístundastarfi.
Starfsáætlun
Hvað er framundan í Austurbæjarskóla? Í starfsáætlun finnur þú meðal annars stefnu skólans fyrir síðasta ár, skipulag kennslu og ótalmargt fleira.
Skólanámskrá
Viltu vita meira um hugmyndafræði og daglegt starf Austurbæjarskóla? Í skólanámskrá finnur þú ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræðilegar áherslur og stefnu skólans í námi og starfi.
- Skoða skólanámskrá
Skólareglur
Saga skólans
Austurbæjarskóli tók til starfa haustið 1930. Áður hafði skólinn við Tjörnina, síðar nefndur Miðbæjarskólinn, verið aðalskóli bæjarins. Áratugurinn 1920 til 1930 fór í undirbúning og byggingu skólans sem reis í austanverðu Skólavörðuholti og var í fyrstu kallaður Nýi barnaskólinn. Sigurður Guðmundsson, húsameistari gerði teikningar og sá um bygginguna. Austurbæjarskóli er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Ásmundur Sveinsson, myndhöggvari gerði lágmyndir yfir báðum aðaldyrum skólans og einnig yfir dyrum á austurgöflum. Árið sem skólinn tók til starfa var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul. Fyrsti skólastjórinn var Sigurður Ó. Thorlacius og 32 kennarar störfuðu við skólann. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa stúlkna, samkomusalur fyrir skemmtanir (jólaskemmtanir), kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sér útbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur vel búnar kennslugögnum. Þetta kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Frá upphafi voru þéringar felldar niður og ákveðið var að börnin gengu frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti. Skólastjórinn sem var hámenntaður og áhugasamur brautryðjandi í fræðslumálum safnaði að sér vel menntuðum kennurum. Vinnubókagerð og samvinna nemenda var tekin upp. Mikill skortur var á námsbókum og öðru lesefni handa börnum. Margir af kennurum Austurbæjarskóla voru mikilvirkir rithöfundar sem skrifuðu fjölþætt efni handa börnum. Má þar nefna höfunda eins og Jóhannes úr Kötlum, Gunnar M. Magnúss, Ragnheiði Jónsdóttur, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Stefán Jónsson. Nokkru eftir 1950 varð nemendafjöldinn mestur, 1839. Nemendur skiptust í allt að 11 deildir í hverjum árgangi. Nú eru rúmlega 400 nemendur á aldrinum 6-15 ára í Austurbæjarskóla í 21 bekkjardeild. Starfsmenn eru 79. Skólinn hefur verið einsetinn frá haustinu 1996. Skólahúsnæðið ásamt lóð hafa á síðustu árum verið í gagngerri endurnýjun. Vilhjálmur Hjálmarsson, arkitekt hefur stjórnað verkinu og endurhannað þessa friðuðu byggingu og aðlagað hana að breyttum kröfum með fullri virðingu fyrir sögulegu gildi hússins. Í janúar árið 2000 var tekin í notkun 320 m2 viðbygging sunnan við skólann og er þá heildarflatarmál skólans 6.717 m2.
Matur í grunnskólum
Skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar veturinn 2024-2025 en mikilvægt er fyrir skólann að hafa áfram yfirsýn, halda utan um upplýsingar um ofnæmi og óþol og takmarka matarsóun. Því þarf eins og áður að skrá nemendur í mataráskrift.
Þeir nemendur sem voru skráðir í fyrra verða sjálfkrafa skráðir í áskrift en aðrir þurfa að skrá sig. Breyting á skráningu fer fram á matur.vala.is.

Foreldrasamstarf
Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi. Foreldrafélag er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar.

Mat á skólastarfi
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfsins er m.a. að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
Skólahverfi
Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun. Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Austurbæjarskóla.
Skólaráð
Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Meginhlutverk skólaráðs að vera vettvangur fyrir alla fulltrúa skólasamfélagsins til að eiga samráð um málefni skólans.