Ræktum lestraráhugann
Hlustað af athygli
Þriðjudaginn 2. desember fór 10. bekkur í skemmtilega heimsókn á Borgarbókasafnið í Grófinni til að hlusta á jólaupplestur þriggja rithöfunda úr nýjustu bókum sínum. Brynhildur Þórarinsdóttir las úr Silfurgenginu, Arndís Þórarinsdóttir las úr Sólgosi og Bergrún Íris Sævarsdóttir las úr SkuldaDegi.
Nemendur hlustuðu af athygli og sýndu áhuga á bæði sögunum og starfi höfunda almennt. Það var skemmtileg upplifun að fá að heyra brot úr bókunum lesin upp af höfundunum sjálfum, fá innsýn í verk þeirra og hugmyndavinnu.
Heimsóknin kveikti glóð hjá mörgum nemendum fyrir lestri yfir hátíðarnar. Vonandi rata einhverjar þessara spennandi bóka í jólapakka nemenda - og ef ekki, þá er hægt að nálgast þær á skólabókasafninu.